Rósa Björnsdóttir Blöndal 1913-2009

Rósa fæddist í Reykjavík 20. júlí árið 1913 og lést árið 2009

Hugleiðing um haustið frá skáldkonunni Jóhönnu Rósu Björnsdóttur Blöndal. Rósa var kennaramenntuð og starfaði við kennslu í mörg ár bæði sem kennari og sem skólastjóri.

Heimild: Ljóðabækur Rósu og Rósa B. Blöndals (mbl.is) sem og Skáld.is (skald.is)

Hér úr ljóðabókinni sem ber heiðið ,,Þakkir, kvæði“ sem gefin var út árið 1933 af Ísafoldarprentsmiðjunni í Reykjavík. bls 31. Bókin er 79 blaðsíður og í henni eru tæp 40 ljóð er þetta fallega ljóð um haustið. Rósa leitar nokkuð til sterkra kvenna úr fornsögunum þegar hún yrkir og þá eins og um þær Brynhildi Buðludóttur, Hallgerði Höskuldsdóttur og um Giselu og Ingva konung eldheitan brag, Sigyn, móður sína og hún tileinkar hún bókinni Jarðþrúði Nikulásdóttur. Já það er gaman að fletta bókinni hennar Rósu. Falleg ljóð og gefandi sem gaman er að lesa. En hér er ljóð er hún kallar ,,Haustkvöld“

Haustkvöld

Þú kemur í hendingum haustkvöld til mín,

í hálfkveðnum orðum þar gullkornið skín.

Úr skál þinni drekk ég hið skíra vín,

sem skyggir af liðnum árum.

Þú minnir á söknuð hins deyjandi dags

og drjúpandi blóð úr sárum.

Að faðmi þér halla sér bliknuð blóm,

frá brestandi strengjum ber veikan óm,

og óskir, sem hlutu sinn hinzta dóm,

sér halla við fætur þína,

þess bíða, að vetur hið ljósa lín

nú leggi yfir hvílu sína.

Nú kveðja lóurnar laut og stein.

Þær leggja af stað yfir djúpin hrein

en þó hnípir eftir ein og ein,

sem er þá með vænginn brotinn.

Í kyrlátum söknuði kvíðir hún

við kaldviðri máttarþrotin.

En haustkvöl, þú vefur hlýjan arm

um heiðlóu vængi og sáran barm,

og þerrar tárin svo kyrrt af hvarm.

Með kærleik frá æðra veldi

þú svæfir það hjarta, sem hefur frið,

og hugann, sem logar af eldi.

Sem segulkynngi þitt seiðmagn er .

Og sál mín er strengspil í höndum þér,

sem djúpa titrandi tóna ber,

er tala’ ekki’ í bundnu orði,

þá óskráðu söngva um ójafnan leik

og eldmóð, sem tapaði’ en þorði.

Kv Magnea

Ljóðabækur

1933 Þakkir kvæði

1966 Fjallagljóð